Innlent

Flugvirkjafélag Íslands fer með samningsaðild

Flugvirki að störfum.
Flugvirki að störfum.

Félagsdómur hefur komist að þeirri niðurstöðu að Flugvirkjafélag Íslands fari með samningsaðild fyrir flugvirkja sem starfa hjá Flugmálastjórn við gerð kjarasamnings við fjármálaráðuneytið. Þetta er niðurstaða dóms sem kveðinn var upp sl. fimmtudag.

Flugvirkjafélag Íslands (FVFÍ) höfðaði mál gegn ríkinu til þess að fá kjarasamningsaðild þessa viðurkennda. Hafði stéttarfélagið um árabil krafist þess ítrekað fyrir hönd flugvirkjanna að gerður yrði kjarasamningur við þá, en flugvirkjarnir hafa fram til þessa starfað hjá stofnuninni án kjarasamnings. Flugmálastjórn hafði fallist á þá málaleitan félagsins en fjármálaráðuneytið hins vegar ávallt synjað um gerð kjarasamnings.

Hér fyrir neðan má lesa tilkynningu frá stjórn Flugvirkja.

„Það er ánægjulegt að þessu gamla baráttumáli okkar sé loksins lokið með þessari niðurstöðu. Þetta eyðir þeirri óþægilegu óvissu sem flugvirkjar hjá Flugmálastjórn hafa þurft að búa við þegar komið hefur að samningsmálum,“ segir Reynir G. Brynjarsson, stjórnarmaður FVFÍ.

Í niðurstöðu sinni kemst Félagsdómur að þeirri niðurstöðu að FVFÍ eigi rétt til samningsaðildar samkvæmt heimild í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, enda sé félagið fagstéttarfélag flugvirkja á landsvísu og uppfylli að öðru leyti skilyrði fyrir samningsaðild.

Í niðurstöðunni voru takmarkanir á fjölda félagsmanna starfandi hjá ríkinu samkvæmt lögunum ekki taldar setja samningsaðild FVFÍ skorður, enda yrði að túlka slíkar takmarkanir þröngt með hliðsjón af stjórnarskrárvörðu félagafrelsi manna, sem einnig væri varið af Mannréttindasáttmála Evrópu. Takmarkanirnar yrði einnig að túlka þröngt með vísan til meginreglu samningaréttarins um samningsfrelsi.

Þá féllst dómurinn ekki á þau sjónarmið ríkisins að meint bann við verkfallsrétti eða að flugvirkjarnir hefðu eftirlit með öðrum flugvirkjum stæðu í vegi fyrir samningsaðild Flugvirkjafélags Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×