Íslenski boltinn

EM kvenna á að vera forgangsatriði hjá Rúv

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sif Atladóttir og Þóra Björg Helgadóttir fagna marki á Laugardalsvelli.
Sif Atladóttir og Þóra Björg Helgadóttir fagna marki á Laugardalsvelli. Mynd/Daníel

„Nei, ég trúi þessu ekki. Ég trúi ekki því sem þú ert að segja mér," voru viðbrögð Sifjar Atladóttur þegar hún heyrði að ekki lægi ljóst fyrir hvort Evrópumót kvennalandsliða yrði í beinni útsendingu í sjónvarpi í sumar.

Tólf sterkustu þjóðir Evrópu leiða saman hesta sína á mótinu. Þetta er annað Evrópumótið sem stelpurnar okkar tryggja sig inn á. Þær voru einnig meðal þeirra bestu í Finnlandi sumarið 2009.

„Ég vona svo innilega að þau sýni þetta enda stórskemmtilegt mót. Það eru margir sem vilja fylgjast með okkur spila," segir Sif. Hennar skoðun er sú að málið eigi að vera forgangsatriði hjá Rúv.

„Ég vona svo innilega að Rúv taki þetta til sín enda frábært fyrir allar stelpurnar sem eru að æfa fótbolta og áhorfendurna sem komast ekki til Svíþjóðar að geta fylgst með," segir Sif sem hafði greinilega gert ráð fyrir því að leikir Íslands yrðu í beinni útsendingu.

„Þetta ætti að vera framkvæmd númer eitt," segir Sif.

Páll Magnússon, útvarpsstjóri, staðfesti við Vísi þann 17. maí að Rúv hefði boðið í sýningarréttinn en að enn væri ekki komin niðurstaða í málið.

„Við eigum enn eftir að fá endanlegt svar,“ sagði Páll. Samkvæmt heimildum Vísis á enn eftir að skrifa undir samninga en bjartsýni ríkir hjá Rúv að gengið verði frá málunum innan skamms tíma.

Ísland mætir Skotlandi í æfingaleik á Laugardalsvelli á morgun klukkan 16.45. Leikurinn er sá síðasti sem liðið spilar hér á landi fyrir lokakeppnina í Svíþjóð. Börn yngri en 16 ára, öryrkjar og ellilífeyrisþegar fá ókeypis á leikinn.

Aðildarfélög KSÍ eru sérstaklega hvött til þess að efna til hópferða á leikinn. Nánari upplýsingar má finna hér.


Tengdar fréttir

Stelpurnar okkar bara á Eurosport?

Engin íslensk sjónvarpsstöð hefur enn keypt sýningarréttinn á Evrópumeistaramóti kvenna í knattspyrnu sem fer fram í Svíþjóð í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×