Innlent

Stjórnarmyndunarviðræður langt komnar

Mynd/Vilhelm

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, héldu stjórnarmyndunarviðræðum sínum áfram í morgun.

Þeir hittust á Alþingi og er stefnt að því að funda í allan dag. Þeir Sigmundur og Bjarni funduðu um helgina og er gerð málefnasamnings mjög langt komin svo og skipting ráðuneyta.

Áður en ríkisstjórnarsamstarf flokkanna verður kynnt fjölmiðlum þarf að kynna það miðstjórn Framsóknarflokksins og flokksráði Sjálfstæðisflokksins. Enn hefur ekki verið boðað til fundar hjá þeim.

Hátt í tvö hundruð manns sitja í miðstjórn Framsóknarflokksins. Hægt er að boða miðstjórnina til fundar með stuttum fyrirvara en líklegt má þó telja að það verði gert með að minnsta kosti dagsfyrirvara vegna fjölda þeirra sem sitja í miðstjórninni.

Í flokksráði Sjálfstæðisflokksins sitja hátt í fimm hundruð manns og þarf að bera ríkisstjórnarsamstarfið undir ráðið en ekki sjálfan stjórnarsáttmálann sjálfan. Með boðun fundar hjá ráðinu gildir það sama og hjá Framsóknarflokknum að það verður líklega gert með að minnsta kosti dagsfyrirvara vegna stærðar ráðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×