Innlent

Flokksráð kallað saman til að samþykkja ríkisstjórnarsamstarfið

Lillý Valgerður Pétursdótir skrifar

Þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins og Bjarni Benediktsson hittust í Alþingishúsinu í morgun til að halda stjórnarmyndunarviðræðum sínum áfram. Viðræður stóðu yfir alla helgina og eru þær langt komnar.

Síðdegis var svo stjórnarsáttmáli flokkanna að mestu tilbúinn og skipting ráðuneyta. Því var fundarboð sent út til flokksráðs Sjálfstæðisflokksins skömmu fyrir fréttir. Ráðið þarf að samþykkja ríkisstjórnarsamstarfið við Framsóknarflokkinn áður en það getur orðið að veruleika.

Í raun má segja að um formsatriði sé að ræða þar sem sjálfur stjórnarsáttmálinn er ekki borinn undir ráðið. Í flokksráðinu sitja hátt í 500 manns og verður fundurinn annað kvöld klukkan hálf níu.

Þá er verið að boða miðstjórn Framsóknarflokksins til fundar en hún þarf að samþykkja stjórnarsáttmálann svo samstarf flokkanna tveggja verði að veruleika. Í miðstjórninni sitja hátt í 200 manns.

Ef báðar þessar stofnanir flokkanna samþykkja samstarfið þá getur ný ríkisstjórn orðið að veruleika á allra næstu dögum.

Búist er við því að Sigmundur Davíð leiði nýju ríkisstjórnina og að Bjarni verði fjármálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×