Innlent

Rannsakað hvort brottnám stúlku í Vesturbænum tengist öðrum málum af svipuðum toga

Lögreglan rannsakar nú hvort tengsl séu á milli þess þegar maður nam tíu ára stúlku á brott í Vesturbænum í síðustu viku og braut á henni kynferðislega, og annarra mála af svipuðum toga. Maðurinn sem handtekinn var ætlar ekki að kæra gæsluvarðhaldsúrskurð.

Stúlkan var á leið heim úr skóla á þriðjudaginn þegar maður þvingaði hana inn í bíl sinn og fór með hana á afvikinn stað við borgarmörkin, þar sem hann er talinn hafa brotið á henni kynferðislega. Hann ók henni síðan aftur í Vesturbæinn en þrátt fyrir hótanir gat stúlkan gefið greinargóða lýsingu á manninum og bíl hans, sem leiddi til handtöku stuttu síðar.

Maðurinn, sem er á fertugsaldri, var úrskurðaður í gæsluvarðhald á Litla Hrauni til 29. maí næstkomandi vegna rannsóknarhagsmuna, og segir verjandi mannsins að sá úrskurður verði ekki kærður.

Stúlkan gaf skýrslu fyrir dómi á föstudaginn og greindi frá atburðarásinni en við yfirheyrslur bar maðurinn fyrir sig minnisleysi. Lögreglan framkvæmdi húsleit á heimili hans og lagði meðal annars hald á tölvugögn. Þau eru nú til rannsóknar ásamt upptökum úr eftirlitsmyndavélum. Eftirlit lögreglu var hert í Vesturbænum og fleiri hverfum í kjölfar atviksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×