Innlent

Verðandi forsætisráðherra: Gengið í að leysa óleyst vandamál

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og verðandi forsætisráðherra, sagði í samtali við fréttastofu að ný ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks gengi annarsvegar út að leysa óleyst vandamál sem hafa verið í biðstöðu árum saman, eins og Sigmundur orðar það.

Þar nefndi hann skuldamálin sérstaklega. Hinsvegar sagði hann að ný ríkisstjórn muni einbeita sér að því að nýta tækifæri í samfélaginu og skapa verðmæti og aftur nýta þau í þágu samfélagins.

Ráðuneytin sem Framsóknarflokkurinn fær eru Forsætisráðuneytið, utanríkisráðuneytið, sjávar- og landbúnaðarráðuneytið, félagsmálaráðuneytið og svo umhverfisráðuneytið.

Hvor flokkur fær því fimm ráðuneyti hvor en Sjálfstæðisflokkurinn mun fara með fjármálaráðuneytið, menntamálaráðuneytið, innanríkisráðuneytið. Svo mun flokkurinn skipa heilbrigðisráðherra í velferðarráðuneytið og iðnaðar- og viðskiptaráðherra í atvinnuvegaráðuneytið.

Framsóknarflokkurinn mun svo ákveða ráðherraskipan annað kvöld. Í fyrramálið mun Sigmundur Davíð ræða við forseta Íslands en síðan verður stjórnarsáttmálinn kynntur á Laugarvatni rétt fyrir hádegi á morgun.

Þess má geta að Sigmundur Davíð verður yngsti forsætisráðherra lýðveldissögunnar þegar ný ríkisstjórn verður skipuð, en hann er 38 ára gamall.

Hægt er að horfa á viðtali við Sigmund Davíð hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×