Innlent

Furðar sig á gamaldags hugmyndum ungra manna

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.

„Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja,“ segir Svandís Svavarsdóttir, fráfarandi umhverfisráðherra, um fyrirhugaða aflagningu ráðuneytisins.

Ekkert umhverfisráðuneyti verður í nýrri ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, en umhverfismál verða þess í stað sett undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.

Svandís segist ekki hafa átt von á þessu og segir að hætt sé við því að náttúruverndarsjónarmið verði undir.

„Það vekur mann til umhugsunar að þessir ungu menn skuli hafa svo gamaldags hugmyndir sem þessar,“ segir Svandís og bendir á að umhverfismál séu almennt í uppsveiflu.

„Þeim er að vaxa ásmegin, enda málaflokkurinn einfaldlega það aðkallandi, sérstaklega í ljósi viðfangsefna nýrrar aldar. Við erum líka sífellt að verða meðvitaðri um mikilvægi náttúruverndar, sem grundvöll fyrir farsælli uppbyggingu í ferðaþjónustu. Þessi sýn þeirra virðist fela það í sér að þeir telji málaflokkinn minna virði og það vekur spurningar um það hvort þeir hafi haft til þess pólitískt umboð að draga úr vægi hans. Ég minnist þess ekki að um þetta hafi verið rætt í kosningabaráttunni.“

Svandís segir ljóst að hagsmunir verndar og sjálfbærniviðmiða eigi ekki alltaf samleið með nýtingu.

„Þegar verndarsjónarmiðin og nýtingarsjónarmiðin togast á er mikilvægt að sjálfbærnin sé alltaf höfð að leiðarljósi. Þegar maður er kominn með nýtingu og vernd að einhverju leyti undir sama þak er hætt við því að verndarsjónarmiðin verði undir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×