Innlent

Afþakkaði aðstoð eftir endurlífgun - sjúkraflutningamenn hringdu í ræðismann

Frá vettvangi í dag.
Frá vettvangi í dag.

Kafari sem komst í hann krappan í Silfru síðdegis í dag neitaði aðstoð sjúkraflutningamanna eftir að hann hafði verið endurlífgaður.

Samkvæmt upplýsingum lögreglu á Selfossi var maðurinn að kafa í Silfru án köfunarbúnaðs en hann var klæddur í blautbúning. Með honum í för voru nokkrir félagar mannsins, en allir eru þeir norskir.

Svo virðist sem maðurinn hafi komist í vandræði ofan í Silfru sem varð til þess að hann missti meðvitund. Félagar hans komu honum á bakkann þar sem þeim tókst svo að endurlífga hann.

Sjúkraflutningamenn komu skömmu síðar á vettvang, en þá var maðurinn allur að braggast utan að hann kastaði ítrekað upp.

Samkvæmt upplýsingum lögreglu skoðuðu sjúkraflutningamenn heilsu mannsins og lögðu hart að honum að fara á spítala.

Maðurinn þverneitaði hinsvegar að leita sér frekari hjálpar. úr varð að sjúkraflutningamennirnir höfðu samband við norska ræðismanninn sem ræddi stuttlega við manninn. Eftir samtalið sat kafarinn fastur við sinn keip, og yfirgaf svæðið ásamt félögum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×