Innlent

Ætlar að endurskoða umdeilt greiðsluþáttökukerfi vegna lyfjakaupa

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Nýtt greiðsluþáttökukerfi vegna lyfjakaupa tók gildi 4. maí. Kerfið hefur verið gagnrýnt töluvert. Það er þrepaskipt og hefur gagnrýnin meðal annars snúið að því hversu háar upphæðir sjúklingar þurfa að greiða við fyrstu lyfjakaup. Kristján Þór Júlíusson nýr heilbrigðisráðherra ætlar sér að skoða málið.

„Það verður brugðist við þeirri gagnrýni sem komið hefur fram. Ráðuneytið hefur sent erindi til Sjúkratrygginga Íslands til þess að yfirfara og meta í ljósi reynslunnar og ég geri ráð fyrir að við förum fljótlega yfir það.“ sagði Kristján í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Þannig verði kerfið endurskoðað. Hann á von á að einhverjar breytingar verði gerðar á því þó ekki sé enn hægt að segja til um hverjar þær verða.

„Ég tel einbúið að það verði reynt að sníða af því mesta agnúann.“

Kristján Þór segir erfitt að segja til um hvenær breytingarnar gætu orðið að veruleika.

„Ég vil hafa sem fæst orð um það en því fyrr því betra eins og flest annað sem að lítur að íslensku heilbrigðiskerfi en á þessari stundu er ég ekki í neinum færum til þess.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×