Innlent

Algengt að húsbílar valdi slysum vegna hvassviðris

Nokkuð algengt er að ökumenn missi stjórn á ökutækjum sínum vegna hvassviðris. Upplýsingafulltrúi Umferðarstofu segir það vera nauðsynlegt fyrir vegfarendur að kynna sér aðstæður á vegum áður en haldið er af stað, þá sérstaklega þegar um húsbíla er að ræða.

Síðastliðinn laugardag lentu húsbíll og rúta saman við Látravík. Afar hvasst var á svæðinu þegar slysið átti sér stað og er talið að húsbíllinn hafi fokið í veg fyrir rútuna. Ökumaður og farþegi húsbílsins slösuðust nokkuð en allir fimmtán farþegar rútunnar sluppu ómeiddir.

Einar Magnús Magnússon, upplýsingafulltrúi Umferðarstofu, segir slys sem þessi vera nokkuð algeng. Hann ítrekar að auðvelt sé að nálgast upplýsingar um færð á vegum.

„Við erum vön að heyra fréttir af því að vegir séu ófærir vegna snjóa og ísa en ég held að við þurfum að stilla okkur inn á það að vegir geta líka verið ófærir vegna vinda. Og það er mjög mikilvægt að vegfarendur fylgist með upplýsingum þetta.“

Upplýsingar um búnað og skipulagningu fyrir ferðalagið, með sérstakri áherslu á húsbíla og aftanívagna, má finna á vef Umferðarstofu. Einar Magnús bendir einnig á Vegsjá Vegagerðarinnar. Þar má fylgjast með færð á vegum, þar á meðal vindhviðum, í rauntíma.

Þá ættu allir ökumenn, sama hvort þeir hyggja á ferð innanbæjar sem utanbæjar, að þekkja helstu staði þar sem vindstrengir eru snarpir. Þetta eru meðal annars Kjalarnesið, Snæfellsnesið og undir Eyjafjöllum.

„Þetta er töluvert algengt að það verði slys af völdum þess að ökumenn missi stjórn á ökutækjum sínum vegna hvassviðris. Strax og vindur er orðinn meiri en fimmtán metrar á sekúndu þá þurfa menn að fara að huga að þessu og sérstaklega á þetta við um smærri bíla sem eru með eftirvagna, hjólhýsi og húsbíla. Þá þurfa menn að gæta mikillar varúðar og huga vel að aðstæður þegar vindur er meri en fimmtán metrar á sekúndu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×