Innlent

Kafarinn kærður

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
mynd/friðrik

Norski kafarinn sem missti meðvitund við köfun í Silfru í fyrradag hefur verið kærður til lögreglu.

Í tilkynningu frá þjóðgarðsverði á Þingvöllum segir að maðurinn hafi kafað einn síns liðs án viðeigandi búnaðar og slíkt sé óheimilt. Enn fremur hafi hann ekki tilkynnt um köfunina og ekki framvísað skírteinum um hæfni sína.

„Ég veit ekki betur en að maðurinn sé staddur hér á landi,“ segir Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum í samtali við Vísi. „Við lögðum kæruna fram strax í gær, bæði til þess að missa ekki af honum og líka til þess að sýna fram á hversu alvarlega við lítum á þetta.“

Kæran var lögð fram til lögreglunnar á Selfossi, en í tilkynningunni segir að fleiri ákvæði í reglum og lögum kunni einnig að hafa verið brotin.

„Þessar reglur eru aðgengilegar á heimasíðunni okkar en líka á skiltum við bílastæðið og þar sem farið er niður stigann í Silfru,“ sagði Ólafur við Vísi í gær. „Ég heyrði í gær að maðurinn hefði verið leiddur að þessum skiltum og bent á þetta þannig að hann fór vitandi vits í gjána.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×