Innlent

Króatarnir fara heim í hádeginu á morgun

Ingveldur Geirsdóttir skrifar

Króatísku flóttamennirnir sem hafa dvalið undanfarið hér á landi í von um að fá hæli fljúga af landi brott á hádegi á morgun. Fimm manna fjölskylda sem dvelur nú í Reykjanesbæ vill ekki sjá það að fara aftur heim og segir ekkert bíða sín þar.

Fjörutíu og átta Króatar, mest fjölskyldufólk frá sama svæðinu í Króatíu, komu hingað til lands í kringum áramótin. Á hádegi á morgun verða tuttugu og sjö þeirra sendir heim með flugi beint frá Keflavíkurflugvelli til Zagreb. Ellefu voru farnir úr landi og tíu manns, úr þremur fjölskyldum, verða áfram á landinu í einhvern tíma en króatísk yfirvöld vilja ekki taka við þeim því eiginkonurnar eru ekki  með króatíska pappíra. Með í för í fluginu verða læknir, sálfræðingur, túlkur, fulltrúi Mannréttindaskrifstofu Íslands auk starfsmanna lögreglu.

Rajakovac fjölskyldan kemur frá Vukovar í austur Króatíu. Fréttamaður hitti þau í byrjun apríl og bjuggu þau þá öll, hjón með þrjú börn, í herbergi á hóteli á Ásbrú. Þau eru nú í íbúð í Reykjanesbæ en á morgun yfirgefa þau hana. Þau bera þá von í brjósti að geta snúið aftur til Íslands þegar Króatía gengur í Evrópusambandið 1. júlí.

Íslensk stjórnvöld borga flugið fyrir þau til Króatíu en ekki farið frá Zagreb til Vukovar, hjónin höfðu áhyggjur af að eiga ekki fyrir því. Samkvæmt nýjum upplýsingum frá Ríkislögreglustjóra er í undirbúningi að Króatísku flóttamennirnir fái farareyri á morgun til að komast til síns heima.

Rajakovac hjónin hafa þó  meiri áhyggjur af því að koma í heimabæinn því þar bíður þeirra ekkert. Þau  hafa ekki þak yfir höfuðið, hafa ekki vinnu og viti ekki hvað verður um þau.

„Landið mitt er að ganga í Evrópusambandið í júlí og staða fjölskyldu minnar breytist ekkert við það. Við erum ennþá í miklum vandræðum, hver erum við og hvað erum við? Fólk hugsar að allt sé í góðu í Króatíu út frá því sem það sér í sjónvarpinu en ef þú kæmir þangað og ef þú býrð þar er þetta ekki svoleiðis eins og í fréttunum. Þegar þú býrð í Króatíu veistu hver er sannleikurinn,“ segir Gordana Rajakovac en hún og maður hennar eru bæði Serbar að uppruna og líða fyrir það í Króatíu.

Tíu ára dóttir þeirra var byrjuð í skóla í Reykjanesbæ og líkaði vel. Gordana var að vinna í fiskvinnslu og var ein úr hópi flóttamannana sem var að vinna. Þau eru mjög ósátt við afgreiðslu Útlendingastofnunar sem þau segja setja alla  undir sama hatt en þau hafi sýnt metnað í að fá vinnu og aðlagast samfélaginu.

„Svo erum við sett í sömu körfu og allir hinir. Ég vil ekki fara heim. Ég mun berjast fyrir því að vera hér þangað til flugvélin fer í loftið. Það er ekki rétt hjá íslenskum stjórnvöldum og Útlendingastofnun að senda mig heim því þau skilja okkur ekki og vilja ekki skilja vandræðin sem við erum í,“ segir Srðdan Rajakovac.

Þau kærðu höfnun Útlendingastofnunar til innanríkisráðuneytisins en ekki er komin niðurstaða í þá kæru, þrátt fyrir það á að senda þau úr landi.

Ummæli Srðdan Rajakovac eru ranglega textuð í sjónvarpsfréttinni. Útgáfan hér fyrir ofan er rétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×