Innlent

Segir Íslendinginn hafa ætlað að stinga annan mann - útvarpsmaðurinn gekk á milli

Tjaldið sem morðið átti sér stað í. Norskir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um málið.
Tjaldið sem morðið átti sér stað í. Norskir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um málið. Skjáskot/vg.no

Guðni Ölversson, kennari í Noregi, sagði í viðtali við félagana í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær að Íslendingurinn sem er í haldi fyrir morð þar í landi, hafi ætlað að stinga annan mann þegar útvarpsmaðurinn gekk á milli með hörmulegum afleiðingum.

„Það er ekki búið að upplýsa eitt eða neitt,“ sagði Guðni í samtal við Reykjavík síðdegis en hann er búsettur í Noregi og hefur fylgst af mikilli athygli með morðinu sem Íslendingurinn var handtekinn fyrir síðustu helgi.

Guðni segir að hópur manna, um 15 til 20 manns, hafi verið í sumarhúsi í þorpinu Valle. Eftir að flestir gengu til náða sátu þrír eftir. Íslendingurinn virðist hafa verið afar æstur en honum leiddist þriðji maðurinn og krafðist þess að hann færi, sem hann tók ekki í mál. Íslendingurinn tók þá í hann og lagði í jörðina en var stöðvaður af þriðja manninum samkvæmt Guðna. Mennirnir sættust og sátu einhverja stund. Fór þá Íslendingurinn að tala um félagi sinn hefði lifað hrikalegt slys af og væri svo heppinn að hann hlyti að vera með níu líf.

„Þá datt Íslendingnum í hug að þetta gæti verið satt, og ætlaði að nota hníf sinn til þess að sanna það,“ sagði Guðni. Þá á útvarpsmaðurinn að hafa reynt að stöðva Íslendinginn með hörmulegum afleiðingum, en Íslendingurinn á að hafa stungið hann fjórum sinnum og lést norðmaðurinn á staðnum.

„Það er ljóst að menn voru kolruglaðir,“ sagði Guðni um kvöldið örlagaríka en ljóst þykir að menn hafi setið lengi að sumbli.

Guðni segir að eftir því sem hann komist næst sé Íslendingurinn, sem er 38 ára gamall, dagfarsprúður maður og líði afar illa í fangelsinu og hafi fengið aðstoð vegna þessa. Maðurinn er giftur og á eitt barn en hann hefur verið á örorkubótum undanfarin ár að sögn Guðna.

Eitt vitni er að morðinu, en það er norski milljarðamæringurinn Knut-Axel Ugland. Vísir greindi meðal annars frá því í gær að sá leigði Landhelgisgæslunni björgunarþyrlurnar TF-SIF og TF-GNÁ allt til ársins 2008.

Hægt er að hlusta á lýsingu Guðna á málinu hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×