Innlent

Hundaplága í Norðlingaholti

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Íbúi í Norðlingaholti segir hundaeftirliti í Reykjavík vera mjög ábótavant.
Íbúi í Norðlingaholti segir hundaeftirliti í Reykjavík vera mjög ábótavant. Mynd/úr safni

Íbúar við Vatnsendasvæðið í Norðlingaholti hafa fengið sig fullsadda af lausagöngu hunda þar um slóðir, en staðurinn er vinsæll meðal hundaeigenda. Hundarnir gera þarfir sínar á einkalóðum á svæðinu og eigendurnir hirða ekki upp eftir þá.



Engin úrræði

Jóhann Skírnisson, einn íbúanna, hefur margsinnis lent í því að fá ókunnuga hunda á pallinn heima hjá sér og jafnvel inn í íbúð. Hann segir hundaeftirlitið vera meingallað kerfi sem nýtist ekki þegar fólk þarf helst á því að halda. „Eftirlit í kringum þessi hundamál virkar hreinlega ekki. Reykjavíkurborg er með hundaeftirlit, en það er bara manneskja sem vinnur á venjulegum vinnutíma þegar vandamálið er allra minnst. Auðvitað fer fólk helst út með dýrin eftir vinnu, á kvöldin og á frídögum. Það gefur auga leið“, segir hann.



Viðvarandi vandamál um allan bæ

Jóhann segist oft hafa þurft að grípa til þess að hringja í lögreglu eftir að Hundaeftirlitið lokar. „Lögreglan viðurkennir að þetta sé viðvarandi vandamál um allan bæ, en þeir benda samt alltaf á Reykjavíkurborg og segja að þeir geti ekki gert neitt á meðan hundurinn hefur ekki bitið neinn eða valdið skaða. Auðvitað ætti lögreglan bara að taka yfir þessi mál þegar Hundaeftirlitið lokar á daginn.“

 

Fólk á að vera öruggt heima hjá sér

Jóhann tekur fram að flestir hundaeigendur fari að lögum og það sé algjör minnihluti sem sleppir þeim lausum og hirðir ekki upp eftir þá. Hann segir óþrifnaðinn þó ekki vera vandamálið heldur sé það áreitið frá hundunum. „Fólki á að líða öruggu heima hjá sér. Konan mín er til dæmis alveg logandi hrædd við hunda. Hér við hliðina á okkur búa hjón með þriggja ára barn og um daginn var kominn stór Husky hundur inn á pall þar sem barnið var að leika sér. Barnið og foreldrarnir urðu alveg dauðskelkuð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×