Innlent

Lögreglumaðurinn verður ekki ákærður

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lögreglumaður sem Erla Bolladóttir, sakborningur í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, sakaði um kynferðisbrot gegn sér verður ekki ákærður. Þetta er niðurstaða ríkissaksóknara sem hefur lokið meðferð kærumáls Erlu. Hinn kærði lögreglumaður starfaði sem rannsóknarlögreglumaður og vann að rannsókn málanna. Hann neitar alfarið sök.

Ríkissaksóknari segir í yfirlýsingu að ljóst hafi verið frá upphafi að kært kynferðisbrot væri fyrnt, en Erla hefur lýst því að brotið hafi átt sér stað árið 1976 þegar hún sat í gæsluvarðhaldi. Þá liggi fyrir að kærandi hafi ekki tjáð sig við neinn um ætlað kynferðisbrot fyrr en að mörgum árum liðnum. Engin vitni hafi verið að ætluðu broti.

Erla lýsti brotinu fyrst 2008 í bókinni Erla góða Erla. Það er sjálfsævisaga Erlu þar sem hún lýsir meðal annars vel rannsókn á Guðmundar- og Geirfinnsmálunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×