Innlent

Tvítugir piltar stálu hundruðum lítra af eldsneyti

Tveir tæplega tvítugir piltar voru handteknir í fyrradag á Suðurnesjum eftir að þeir játuðu stórfelldan þjófnað á olíu úr vinnuvélum og vörubifreiðum vítt og breitt í umdæminu á undanförnum mánuðum.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu höfðu þeir einnig látið greipar sópa í fleiri umdæmum. Annar piltanna reyndist vera með litaða olíu á einkabifreið sinni og varð það til þess að margítrekuð brot þeirra komust upp og hafa þeir játað sök.

Höfðu þeir í flestum tilvikum verið saman við að stela eldsneytinu. Til þess notuðu þeir nokkra brúsa og slöngu til að sjúga olíuna upp. Er talið að mest hafi þeir náð að stela um 180 lítrum í einni ferð, en í flestum hinna tilvikanna um 100 lítrum í hvert sinn.

Þeir tíðu olíuþjófnaðir sem tilkynntir hafa verið til lögreglunnar á Suðurnesjum á undanförnum misserum teljast því upplýstir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×