Innlent

Segir sögusagnir um skiptingu ráðherraembætta ósannar

Jóhannes Stefánsson skrifar
Sigmundur og Bjarni munu ræða málin um helgina
Sigmundur og Bjarni munu ræða málin um helgina Mynd/ Vilhelm
Sögusagnir um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi gert það að kröfu sinni að embætti fjármála- og atvinnuvegaráðherra myndu falla þeim í skaut eru ekki réttar, samkvæmt Svanhildi Hólm, aðstoðarmanns Bjarna Benediktssonar. „Þeir vita þá meira en við, við erum ekki byrjuð að ræða þessa hluti," segir Svanhildur. Viðræður flokkanna snúast enn um málefni og eru ekki komnar á það stig að farið sé að ræða að neinu ráði skiptingu ráðuneyta á milli flokkanna.

Samkvæmt slúðurdálki Viðskiptablaðsins, Tý, á Sjálfstæðisflokkurinn að hafa lagt fram kröfur þess efnis að ríkisstjórnarsamstarf væri háð því að flokkurinn fengi tvö fyrrnefnd ráðuneyti í sinn hlut.

Samkvæmt frétt Fréttablaðsins frá því í morgun hefur skipting ráðherraembætta aðeins lítillega verið rædd og engar ákvarðanir hafa verið teknar þar að lútandi. Ekkert hefur því enn fengist staðfest í þessum efnum, en formennirnir munu halda viðræðunum áfram alla helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×