Innlent

Bókaskrif gamall draumur sem rættist

Sara McMahon skrifar
Björg Magnúsdóttir þúsundþjalasmiður.
Björg Magnúsdóttir þúsundþjalasmiður. Mynd/ Valli.
Björg Magnúsdóttir gefur út sína fyrstu skáldsögu í lok mánaðarins. Bókin ber titilinn Ekki þessi týpa og kemur út á vegum Forlagsins.

Ekki þessi týpa segir frá lífi fjögurra ungra kvenna sem búsettar eru í Reykjavík og er bókin byggð á lífi Bjargar sjálfrar. „Það eina „konkret" sem ég get líkt bókinni við, án þess að ætla að vera of góð með mig, eru bandarísku þættirnir Girls. Sagan fjallar um málefni tengd ungum konum, en líka pólitík og lífið sjálft. Það sem er kannski sérstakt við bókina er að hún er byggð á mínu lífi og senurnar hafa flestar gerst í alvöru. Fólkinu í kringum mig þótti það bæði spennandi og óþægilegt og ég þurfti að taka einkafundi með sumum," segir Björg, en hún er stjórnmálafræðingur að mennt og hefur einnig bloggað fyrir Smartland og Pressuna.

Björg hóf að skrifa bókina í júní í fyrra og lauk við hana í desember. Hún segir að með útgáfu bókarinnar sé gamall draumur að rætast. „Mig hefur alltaf dreymt um að skrifa bók, alveg frá því ég var mjög lítil. Sagan er búin að vera í hausnum á mér ógeðslega lengi þannig að hún rumpaðist frekar hratt út um leið og ég byrjaði að skrifa," segir hún. „Ég er með efni í tíu bækur í viðbót. Mig langar að gera meira með þessa karaktera og svo langar mig líka að skrifa um margt annað, en framhaldið fer algjörlega eftir viðtökunum sem þessi bók fær. Kannski fæ ég ekki að skrifa meira fyrir aðra eftir þetta," segir hún í gamansömum tón.

Hún viðurkennir að það verði erfitt að láta bókina frá sér en segir til lítils að ætla að velta sér um of upp úr slíkum hlutum. „Auðvitað verður erfitt að bíða eftir viðbrögðum fólks, en maður má ekki pæla of mikið í slíkum hlutum. Ég er örugg með bókina og fékk valda aðila til að lesa hana yfir og veit að þetta er gott stöff," segir hún að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×