Innlent

Heilbrigðiseftirlit segir olíumengunarslys alvarlegt

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Um sex hundruð lítrar af dísilolíu helltust niður á bílastæðinu við Bláfjallaskálann.
Um sex hundruð lítrar af dísilolíu helltust niður á bílastæðinu við Bláfjallaskálann. Mynd/Orkuveitan
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur sent frá sér tilkynningu vegna olíumengunarslyss sem varð innan vatnsverndarsvæðis höfuðborgarinnar í Bláfjöllum. Aukin vöktun verður með neysluvatni borgarbúa næstu vikur.

Í tilkynningunni segir að öll umhverfisslys á svæðinu séu litin alvarlegum augum og geti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir neysluvatn höfuðborgarsvæðisins. Þá eru ummæli um að engin hætta sé á ferðum sögð algjörlega úr lausu lofti gripin og ábyrgðarlaus.

Tilkynning Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í heild sinni:

Í ljósi fréttaflutnings undanfarið í fjölmiðlum og að farið er með rangt mál í veigamiklum atriðum er snerta vatnsverndarsvæði höfuðborgarbúa vill Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur koma eftirfarandi á framfæri:

 

Bláfjöll, þar með talið skíðasvæðið og Þríhnúkagígar, eru innan vatnsverndarsvæðis höfuðborgarinnar.  Svæðið, sem mengunarslys síðastliðinn miðvikudag átti sér stað á, er einnig innan vatnsverndarsvæðisins, nánar tiltekið á fjarsvæði A.  Um er að ræða viðkvæmt svæði með mikilli vernd og takmörkunum á öllum framkvæmdum og fleiru sem valdið getur mengun.  Öll meðferð olíu er háð leyfi heilbrigðisnefndar og krafist er fullkominna mengunarvarna.  Eins er öll starfsemi starfsleyfisskyld.

 

Bláfjöll eru eitt af aðalákomusvæðum vatnsins sem rennur til vatnstökusvæðanna auk þess sem stórir grunnvatnsstraumar liggja undir svæðinu. Þeir straumar fara meðal annars að aðalvatnstökusvæðum höfuðborgarbúa í Vatnsendakrikum í Heiðmörk og til Kaldárbotna í Hafnarfirði.  Það gefur augaleið að öll umhverfisslys á svæðinu eru litin alvarlegum augum og geta haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir neysluvatn höfuðborgarsvæðisins sem er í dag grunnvatn í hæsta gæðaflokki og laust við nokkra meðhöndlun. Ummæli eins og heyrst hafa í tengslum við alvarlegt olíumengunarslys á miðvikudaginn síðastliðinn um að engin hætta sé á ferðum og jafnvel þó að mengunarslysið hefði orðið mun stærra, eru algjörlega úr lausu lofti gripin og ábyrgðarlaus.

 

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vill koma því á framfæri að næstu vikur mun aukin vöktun verða með neysluvatni höfuðborgarbúa.  Búið er að fjarlægja mengaðan jarðveg eftir megni undanfarna daga auk þess sem málið er í rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×