Innlent

Formennirnir ræða mikið um skatta- og skuldamál

Hrund Þórsdóttir skrifar
Stund á milli stríða. Formennirnir niðri á Alþingi.
Stund á milli stríða. Formennirnir niðri á Alþingi.
Stjórnarmyndunarviðræður Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks halda áfram í dag og á morgun. Aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, segir mikið rætt um skatta- og skuldamál og að formennirnir muni gefa sér þann tíma sem þeir þurfi.

Formenn flokkanna, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson ætla að hittast á höfuðborgarsvæðinu núna um hádegisbilið en halda svo hugsanlega út fyrir bæjarmörkin og halda áfram viðræðum þar.

„Viðræður halda áfram bara eins og þær hafa gert. Í gær ræddu þeir mikið um efnahagsmál, skattamál og skuldamálin, og þeir halda áfram þeirri vinnu sem hefur verið í gangi. Þeir munu gera það bæði í dag og á morgun og eins lengi og þurfa þykir þar til niðurstaða næst,“ segir Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Spurð um hvort fleiri en formennirnir muni koma að viðræðunum á næstunni segir hún að þeir muni meta það sjálfir og kalla til fólk þegar það verði tímabært.

„Það er búið að vera mjög góður gangur í þessu. Það er fín framvinda á viðræðunum og eins og þeir sögðu í viðtölum í gær þá ná þeir vel saman og það er ekki mikið sem steytir á. Það eru bara ákveðnar tæknilegar útfærslur sem þarf að fara vel yfir og vinna vel,“ segir Svanhildur.

Umræður um ráðherraskipan eru ekki hafnar og Svanhildur segir óljóst hvenær búast megi við lendingu í viðræðunum.

„Þeir ætla að gefa sér þann tíma sem þeir þurfa til að vinna þetta eins og best verður á kosið þannig að í næstu viku,“ segir hún að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×