Innlent

Telur tímabært að breyta hlutverki mannanafnanefndar

Jóhannes Stefánsson skrifar
Mörður Árnason
Mörður Árnason Mynd/ Vísir
Mörður Árnason, íslenskufræðingur og fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, telur koma til greina að hlutverki mannanafnanefndar verði breytt. „Ég hef velt því fyrir mér hvort rétt væri að hlutirnir væru þannig að hún hefði leiðbeiningarhlutverk en færi ekki með leyfisveitingu," segir Mörður um hlutverk nefndarinnar.

Mörður telur þó ekki óhugsandi að nefndin yrði hreinlega lögð niður. „Það er leiðinlegt að ríkið sé að skipta sér af jafn viðkvæmum og persónulegum hlutum og nafngjöf, en á hinn bógin þurfa menn að hafa í huga hinn ágæta málshátt sem segir að það þurfi þorp til að ala upp barn, og börn eru ekki eign foreldra sinna eins og bíll og hús," segir Mörður.

Hefur skilning á málflutningi beggja hliða

Um röksemdir fyrir tilvist nefndarinnar segir Mörður: „Það er um tvennt að ræða í þessu. Annars vegar er verið að halda uppi málræktarstefnu og  barnaverndarstefnu. Það skiptir máli hvaða nafn er valið á barnið og menn þurfa að íhuga þetta tvennt saman. En auðvitað hefur samfélagið breyst og innflytjendum hefur fjölgað sem bera sín eigin nöfn." Mörður bætir svo við: „Það er eðlilegt að fámenn þjóð sem talar sérstakt mál geri ýmsar ráðstafanir til að halda þeirri þjóðtungu hátt á lofti."

Mörður segir augljóst að það þurfi að breyta núverandi lögum. Hann nefnir að sumir vilji leggja lögin niður en bætir við: „Ég held að heppilegra skref væri að láta nefndina hafa leiðbeiningarhlutverk þannig að foreldrar hafi sjálfir síðasta orðið um nafn barna sinna." Mörður telur að lágmarki þurfi að veita heimild til áfrýjunar svo að málin rati síður fyrir dómstóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×