Innlent

Sjá eftir Gunnari Smára

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Félagsmenn SÁÁ sjá mikið eftir Gunnari Smára Egilssyni. Rúnar Freyr Gísason segir Einar Hermannson líklegan arftaka.
Félagsmenn SÁÁ sjá mikið eftir Gunnari Smára Egilssyni. Rúnar Freyr Gísason segir Einar Hermannson líklegan arftaka.
Rúnar Freyr Gíslason, starfsmaður SÁÁ, segir félagsmenn sjá mikið eftir formanninum Gunnari Smára Egilssyni. Gunnar tilkynnti í gær að hann myndi ekki gefa kost á sér til formennsku á aðalfundi samtakanna sem haldin verður í lok mánaðar.



Rúnar segir ákvörðun Gunnars hafa komið sér og öðrum félagsmönnum mikið á óvart. „Það bjóst enginn við þessu. Gunnar hefur verið frábær formaður og gerði alveg rosalega góða hluti fyrir samtökin. Að vera edrú er mun minna tabú en áður og það er Gunnari að þakka“, segir Rúnar, en félögum í SÁÁ hefur fjölgað mikið á síðustu misserum og félagsstarf eflst til muna.



Aðspurður segist Rúnar ekki hafa hugsað út í að gefa kost á sér til formennsku, en hann hefur unnið mikið fyrir samtökin síðustu mánuði. „Ég hef ekki leitt hugann að því að bjóða mig fram en fólk hefur verið að nefna Einar Hermannsson í þessu samhengi. Hann hefur setið í stjórn síðasta árið og skilað frábæru starfi, meðal annars hélt hann uppi Betra líf átakinu okkar. Hann væri vel að þessu kominn“, segir Rúnar. „Ég er virkilega jákvæður og bjartsýnn á framtíð samtakanna. Gunnar skilur eftir sig frábæra arfleið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×