Innlent

Fer fögrum orðum um Ísland - "Þetta er mjög óvenjulegt allt saman"

Julia Stiles
Julia Stiles Mynd/Fox news
Leikkonan Julia Stiles fer fögrum orðum um Ísland í nýlegu viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina Fox News.

Stiles lék í myndinni Little Trip to Heaven sem Baltasar Kormákur leikstýrði fyrir nokkrum árum. Í viðtalinu segir hún frá upplifun sinni á landi og þjóð.

„Einn af mínum uppáhaldsstöðum sem ég farið til í vinnuferð var Ísland. Ég lék í mynd sem tekin var upp á Íslandi. Það var draumi líkast, algjör draumastaður - mjög aðlaðandi og fallegur. Þú verður að fara á á réttum tíma því ég held að það sé dimmt meirihluta vetrarins. Það er svo mikið hægt að gera þar, eins og náttúrulegir hverir og svo er mjög góð tónlist þar. Ég held að margar hljómsveitir stoppi á Íslandi á leiðinni til Evrópu. Þær stoppa á Íslandi. Svo sá ég James Brown spila í leikfimisal í menntaskóla og Damien Rice. Svo er hægt að fara í frábærar hestaferðir þarna. Og æðislegur matur. Þetta er mjög óvenjulegt allt saman. Þetta er eins og í „Lord of the Rings“ eða eitthvað,“ segir Stiles í viðtali við Fox.

Fréttamaðurinn spurði hana svo hvort hún hefði prófað að borða furðulegan mat hér á landi?

„Ég hef aldrei prófað að borða þetta, en það er einhver hefð á Íslandi að borða eitthvað sem heitir harðfiskur,“ segir hún.

Þegar hún útskýrir hvað harðfiskur er virðist hún ekki vera með það á hreinu úr hverju harðfiskur er gerður. „Þetta er hákarlakjöt sem er grafið í jörðina í einhvern tíma og svo er þetta tekið upp úr jörðinni og borðað.“

Hægt er að horfa á viðtalið við Juliu Stiles hér að neðan.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×