Innlent

Kjósendur hugsi sinn gang

Steingrímur J. Sigfússon er ekki sáttur við íslenska kjósendur
Steingrímur J. Sigfússon er ekki sáttur við íslenska kjósendur Mynd/ Vísir
Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður Vinstri Grænna og starfandi atvinnuvegaráðherra, er ekki par sáttur við íslenska kjósendur ef marka má grein sem Financial Times birti eftir Steingrím í gær.

Í greininni segir Steingrímur meðal annars: „Úrslitin á Íslandi gefa tilefni til sjálfskoðunar, ekki bara hjá stjórnmálamönnum heldur líka hjá kjósendum. Eru væntingar okkar raunhæfar?" Steingrímur segir úrslit kosningana ekki helgast af því að illa hafi tekist til á kjörtímabilinu heldur hafi kjósendur, sem þrái lífsgæði bóluhagkerfisins, gert of miklar væntingar til stjórnvalda eftir efnahagshrunið 2008.

Steingrímur telur kjósendum hafa yfirsést hversu vel hafi í raun tekist til á kjörtímabilinu og segir að tekist hafi að halda í hina norrænu velferð sem hafi vakið heimsathygli.

Kjósendur of óþolinmóðir

Þá gerir Steingrímur að því skóna að íslenskir kjósendur, og reyndar evrópskir kjósendur almennt, séu of óþolinmóðir og rétt hefði verið að gefa fráfarandi stjórnvöldum lengri tíma við stjórnvölinn. Steingrímur segir úrslit kosninganna vera ótrúleg og bendi til þess að kjósendur þurfi að hugsa sinn gang.

Steingrímur segir kjósendur hafa keypt hina margkveðnu tuggu um að koma skyldi efnahagslífinu af stað með lægri sköttum og minna regluverki. Þannig hafi kjósendur gert þau mistök að falla fyrir „skammtímaneyslu" í stað „stöðugleika til langs tíma."

Í niðurlagi greinarinnar veltir Steingrímur því fyrir sér hvort stjórnvöldum sé hreinlega mögulegt að halda í völd nógu lengi til að koma þjóðum úr efnahagsörðugleikum og segir: „Er eina leiðin til að mæta hinni óseðjandi þörf kjósenda fyrir hagvöxt að byggja hagkerfi á kviksyndi?"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×