Innlent

Björgunarsveitamönnum þakkað fyrir starf sitt

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hér sést hvar Hjálmar Friðbergsson afhendir Birki Má Jóhannssyni björgunarsveitamanni úr Björgunarsveitinni Erni í Bolungarvík þakkarlaun.
Hér sést hvar Hjálmar Friðbergsson afhendir Birki Má Jóhannssyni björgunarsveitamanni úr Björgunarsveitinni Erni í Bolungarvík þakkarlaun.

Fjórar björgunarsveitir og Slysavarnadeild kvenna í Reykjavík fengu afhenta styrki frá Já, sem gefur út Símaskrána, í tilefni af útgáfu hennar. Björgunarsveitamenn prýða forsíðu símaskrárinnar að þessu sinni.

Í tengslum við útgáfu Símaskrárinnar 2013 var efnt til samkeppni um reynslusögur af því hvernig björgunarsveitirnar hafa komið fólki til hjálpar. Nokkrar sögur voru síðan valdar til birtingar í Símaskránni. Í samkeppninni var keppt um peningaverðlaun, samtals eina milljón króna. Já veitir björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar þá fjárhæð sem styrk en það kom í hlut höfunda þriggja reynslusagna, sem birtar voru í Símaskránni og best þóttu lýsa mikilvægi sjálfboðaliðastarfsins, að ákveða hvaða björgunarsveitir það voru sem fengju þessa styrki.

Fyrstu verðlaun í samkeppninni hlaut karlmaður sem ekki vill láta nafns síns getið. Hann fékk 500.000 krónur til ráðstöfunar og ákvað að skipta þeim þannig að Flugbjörgunarsveitin á Hellu fengi 300.000 krónur og Björgunarsveitin Tintron í Grímsnes- og grafningshreppi fengi 200.000 krónur. Annað sæti í samkeppninni hreppti Hjálmar Friðbergsson sem kaus að láta 300.000 krónur renna óskiptar til Björgunarsveitarinnar Ernis í Bolungarvík. Í þriðja sæti varð Anna M. Hálfdánardóttir, hún skipti 200.000 króna vinningi þannig að Björgunarsveitin Ársæll í Reykjavík og á Seltjarnarnesi og Slysavarnadeild kvenna í Reykjavík fengu hvor um sig 100.000 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×