Innlent

Vill að ríkið geri betur við hönnuði

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Ásta Kristjánsdóttir, stofnandi ATMO, segir að íslenskir hönnuðir eigi erfitt uppdráttar.
Ásta Kristjánsdóttir, stofnandi ATMO, segir að íslenskir hönnuðir eigi erfitt uppdráttar. MYND/VISIR

Verslunin ATMO á Laugavegi hefur lagt upp laupana eftir aðeins sex mánuði í rekstri. ATMO var staðsett í  gamla Sautján-húsinu að Laugavegi 91 og var tilgangur búðarinnar var að auka aðgengi og sölu á íslenskri hönnun. Þeir sem seldu hönnun sína hjá versluninni munu sækja vörurnar um helgina.

 

Enginn stuðningur

Ásta Kristjánsdóttir, einn af stofnendum ATMO, segir aðflutningsgjöld, tolla og háan virðisaukaskatt gera íslenskum hönnuðum erfitt fyrir og að vöruflæði standi því ekki undir sér. Rekstur hönnunarfyrirtækja og smásöluversluna gangi ekki á þessum forsemdum. „Þetta er ofboðslega leiðinlegt. Maður heyrir alltaf að það sé verið að styrkja skapandi greinar en ég get ekki séð að það sé nokkur stuðningur. Ríkið verður að fara að gera betur við hönnuði.“

 

Margir hönnuðir hafa ekki sölustað

Aðspurð hvort há húsaleiga hafi sett strik í reikninginn segir Ásta ekki svo vera. „Húseigandi var hluthafi í ATMO og hefur mikið komið til móts við okkur. Markmiðið var í rauninni aldrei að græða á þessu heldur var það alltaf að koma hönunninni á framfæri“, segir hún. ,,Margir hönnuðir sem hafa ekki sölustað fyrir vörurnar sínar. Þess vegna vona ég að sambærileg verslun eða markaður opni fljótega.“ Ásta vill að endingu minnast á að nokkur vörumerki verða með lokasölu í húsinu 17 -26. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×