Innlent

Sannfærður um að fylgið verði námundað

VG skrifar
Þorvaldur Gylfason.
Þorvaldur Gylfason.

„Málið virðist vera reist á misskilningi,“ segir Þorvaldur Gylfason en Lýðræðisvaktin hlaut í síðustu kosningum 2,46 prósent atkvæða samkvæmt tölum frá kjörstjórn en þurfti, samkvæmt lögunum, að ná 2,5 prósentum til að hljóta styrk upp á 29 milljónir króna.

Það er því 0,04 prósenta munur á milli feigs og ófeigs en frá því var greint í Viðskiptablaðinu fyrr í vikunni, og á Vísi í morgun, að margt bendi til þess að Lýðræðisvaktin verði af tæpum 30 milljónum í þingstyrk, samkvæmt lögum um fjármál stjórnmálaflokkanna, samkvæmt þessum tölum.Þorvaldur, sem er formaður Lýðræðisvaktarinnar, er ósammála því og segir að námundareglan hljóti að gilda í þessu eins og í öðru.

Þorvaldur bendir raunar á að það er ansi langt í að Lýðræðisvaktin fái styrkinn, það gerist ekki fyrr en á næsta ári. Sjálfur segist hann ekki hafa fengið neinar upplýsingar hvort það verði námundað í þessu samhengi en í II kafla, 3. grein laganna um fjármál stjórnmálaflokkanna segir:

„Árlega skal úthluta fé úr ríkissjóði til starfsemi stjórnmálasamtaka sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn á Alþingi eða hlotið hafa a.m.k. 2,5% atkvæða í næstliðnum alþingiskosningum samkvæmt ákvörðun á fjárlögum hverju sinni. Fjárhæðinni skal úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn.“

Þorvaldur segir að lokum að hann sé sannfærður um að niðurstaðan verði sú að notast verði við námundun þegar kemur að því að reikna styrk flokksins. Ef niðurstaða kjörstjórnar verður sú að námundareglan gildi ekki, hefur það meðal annars það í för með sér að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn fá um 18 milljónir aukalega í styrki.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×