Innlent

Mátti ekki hafna því að selja áfenga koffíndrykki

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag íslenska ríkið til þess að greiða fyrirtækinu Vín Tríó ehf., tvær og hálfa milljónir króna í skaðabætur eftir ÁTVR hafnaði að selja áfengan drykk á vegum fyrirtækisins á þeim forsendum að í honum væri koffín. Eins var ákvörðun fjármálaráðuneytisins, sem staðfesti höfnun ÁTVR, felld úr gildi í héraðsdómi.

Forsaga málsins er nokkuð löng en Vín Tríó vildi að Vínbúðin tæki drykkinn Mokai Cider til reynslusölu en því var hafnað á þeim grundvelli að drykkurinn innihélt koffín. Vínbúðin sagði svo upp vörukaupasamning við fyrirtækið og hætti í kjölfarið að selja drykkinn Cult Shaker sem hafði verið fáanlegur í vínbúðum frá árinu 2006. Ástæðan var sú sama, það var of mikið koffín í drykknum.

Báðar ákvarðanirnar voru byggðar á reglum sem veita ÁTVR heimild til að hafna sölu á vöru sem inniheldur koffín eða önnur örvandi efni. Vísað var til rannsókna sem bentu til að neysla áfengis, blönduðu örvandi efnum, gæti leitt til aukinnar ölvunar, einkum meðal yngri aldurshópa. Efnin hefðu þau áhrif að neytandinn yrði síður var við ölvun sína og væri líklegri til þess að neyta áfengis í ríkari mæli og auka þar með hættuna á alvarlegum afleiðingum.

Vín Tríó stefndi í kjölfarið íslenska ríkinu og fór fram á að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi. Héraðsdómur Reykjavíkur ákvað að leita eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins.

EFTA dómstólinn komst að þeirri niðurstöðu að ÁTVR væri heimilt að slíta samningnum í ljósi þess að engar samsvarandi innlendar framleiðsluvörur eru til sölu hér á landi, og að bannið væri ekki til þess gert að vernda slíkar vörur með einhverjum hætti.

Nú aftur á móti komst Héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að ákvarðanir ÁTVR, þar sem hafnað var að kaupa tvær áfengistegundir sem innihéldu koffín af Vín Tríói, hefðu ekki haft viðhlítandi lagastoð.

Staðfesting fjármálaráðuneytisins á þessum ákvörðunum var því felld úr gildi auk þess sem stefnanda voru dæmdar skaðabætur úr hendi íslenska ríkisins sem eru, eins og fyrr segir, tvær og hálf milljón. Hinsvegar var vísað frá dómi kröfu Vín Tríó um að viðurkennd yrði bótaskylda fyrirtækisins vegna fyrrgreindrar staðfestingar fjármálaráðuneytisins á uppsögn vörukaupasamnings um drykkinn Cult Shaker.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×