Innlent

Reyna að koma í veg fyrir dauða milljón barna

Á myndinni er hluti starfsmanna Barnaheilla – Save the Children á Íslandi og GlaxoSmithKline.
Á myndinni er hluti starfsmanna Barnaheilla – Save the Children á Íslandi og GlaxoSmithKline.

Barnaheill - Save the Children hafa ráðist í samstarf við lyfjafyrirtækið GlaxoSmithKline (GSK) með það að markmiði að koma í veg fyrir dauða milljón barna undir fimm ára aldri á næstu fimm árum. Aðgengi að tveimur tegundum barnalyfja verður aukið til að ráðast gegn nýbura- og ungbarnadauða. Sérfræðiþekking beggja aðila á mismunandi sviðum verður grunnurinn að verkefninu sem hófst formlega 10. maí, fyrst í Kongó og Kenýu. Reynslan þar verður nýtt til að setja af stað sambærileg verkefni í fleiri löndum í suðurhluta Afríku, Asíu og Suður-Ameríku.

Í tilkynningu frá Barnaheillum á Íslandi kemur fram að rannsóknir og þróunarvinna GSK hafa meðal annars leitt í ljós að sýklaeyðandi efni í munnskoli er hægt að umbreyta í lyf fyrir nýbura. Fyrirtækið hefur einnig kynnt til sögunnar sýklalyf í duftformi sem hentar vel ungum börnum með lungnabólgu, en hún er ein helsta dánarorsök barna undir fimm ára aldri.

„Þetta er í fyrsta sinn sem Barnaheill - Save the Children taka þátt í að rannsaka og þróa lyf fyrir börn, en það gerist með þátttöku í sérstakri stjórn sem hefur það meðal annars að markmiði að hraða þróun nýsköpunar í lyfjum sem vinna gegn barnadauða. Stjórnin skoðar einnig nýjar aðferðir sem tryggja sem mesta dreifingu og aðgengi að lyfjunum í þróunarlöndum. GSK mun styrkja hlutverk Save the Children í heilsufarsmálum, styðja sérfræðiþekkingu og veita þannig börnum í afskekktustu og vanþróuðustu samfélögunum grunnheilbrigðisþjónustu,“ segir í tilkynningunni




Fleiri fréttir

Sjá meira


×