Innlent

Tíu manna leitað - börn urðu vitni að árásinni

Myndin er úr safni
Myndin er úr safni Mynd/Villi

Lögreglan leitar nú manna sem grunaðir eru um hrottalega líkamsárás í Seljahverfinu síðdegis í dag. Vitni að árásinni segja að allt að tíu manna hópur hafi ráðist á einn mann og lamið hann, meðal annars með hafnaboltakylfu sem fannst á vettvangi.

Svo virðist sem um einhverskonar uppgjör hafi verið ræða, að sögn lögreglu. „Hvort þetta er handrukkun veit ég ekki,“ segir Þorvaldur Sigmarsson, varðstjóri hjá lögreglunni í Kópavogi sem kom fyrst á vettvang í dag.

Þorvaldur vill ekki gefa upp hvort að einhverjir hafi verið handteknir, en lögreglan telur sig hafa vísbendingar um hverjir voru þarna að verki og er þeirra nú leitað. Sá sem fyrir árásinni varð er alvarlega slasaður og var fluttur á slysadeild.

Árásin varð í friðsælli götu í Seljahverfinu um miðjan dag, og segir Þorvaldur að íbúar hafi orðið vitni að árásinni. „Það voru börn þarna úti þegar þetta hófst en það náðist að kippa þeim inn skilst okkur, svo þau hafa ekki séð mikið af þessu. Þetta er kannski ekki það sem fólk á von á í svona íbúagötu,“ segir Þorvaldur.

Sá sem fyrir árásinni varð býr ekki í götunni, að sögn Þorvaldar.

Málið er nú komið til rannsóknardeildar lögreglunnar.

Uppfært: 22:50

Tveir menn hafa verið handteknir í tengslum við árásina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×