Innlent

Segist engu kvíða

Eyþór segist frekar spenntur en kvíðinn
Eyþór segist frekar spenntur en kvíðinn Mynd/ Örlygur Smári

Eyþór Ingi Gunnlaugsson segist engu kvíða fyrir stóru stundina í kvöld en hann verður númer nítján í röðinni á sviðinu í Malmö í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.  Stærsti sigurinn hafi verið að koma lagi sem sungið hafi verið á íslensku inn í úrslitakeppnina.

Dagurinn hjá Eyþóri Inga er þéttskipaður æfingum og viðtölum í dag enda stóra stundin að nálgast. Tuttugu og sex lönd keppa um Eurovision titilinn í kvöld og verður Eyþór nítjándi flytjandinn á eftir Danmörku sem spáð hefur verið góðu gengi í keppninni.  Við rétt náðum tali af Eyþóri áður en hann þurfti að rjúka annað en hann er brattur fyrir kvöldið og segist hlakka til að fá tækifæri til að flytja lagið Ég á líf aftur.

„Það er náttúrulega búið að æfa þetta svo oft þannig að maður er bara nokkuð yfirvegaður. Síðan er svo gaman að koma fram á þessu sviði sem er mjög stórt og viðamikið þannig að það er miklu frekar spenningur en kvíði að koma fram. Okkur hefur líka verið vel tekið þegar við stígum á stokk þannig að manni líður eins og maður sé velkominn."

En hvað hefur Eyþóri þótt erfiðast í öllu þessu Eurovision ferli? „Ég held að það sem búið er að vera erfiðast eru fjölmiðlafundirnir og pressan sem þeim fylgir.  Það hefur tekið aðeins á og er alveg orkusuga þegar það hefur verið mikið."

Stærsti sigurinn sé þó að hafa komist áfram með lag á íslensku. „Við erum bara rosalega stoltir af því að hafa farið í gegn með lag á íslensku. Ég held að það sé bara mjög flott."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×