Innlent

Ólga í undirheimum vegna árásarinnar í Breiðholti

Karen Kjartansdóttir skrifar

Heimildir fréttastofu herma að mikil ólga sé nú milli tveggja fylkinga ofbeldismanna út af árásinni í Ystaseli síðastliðinn föstudag. Maðurinn sem varð fyrir árásinni var útskrifaður af sjúkrahúsi í gær. Hann slasaðist illa í andliti eftir barsmíðarnar en honum var meðal annars misþyrmt með hafnaboltakylfu sem fannst á vettvangi.

Þolandi árásarinnar hefur hlotið marga dóma vegna ofbeldisbrota og var meðal annars dæmdur í fimm ára fangelsi á þessu ári fyrir nauðgun. Hann er þó ekki á boðunarlista fangelsisyfirvalda og hefur því eftir því sem fréttatofa kemst næst áfrýjað málinu til Hæstaréttar.

Líkamsárásin mun hafa verið hefnd vegna kynferðisbrots gegn ungir konu. Hún mun hafa kært brotið.

Helstu gerendur í málinu munu einnig margsinnis hafa komið við sögu lögreglu. Lögregla handtók tvo þeirra sem tóku þátt í árásinni en ekki þótti ástæða til að fara fram á gæsluvarðhald yfir þeim og var þeim báðum sleppt fljótlega eftir skýrslutöku.

Lögreglan vill ekkert tjá sig frekar um málið og segir öll málsatvik í tengslum við árásina liggja nokkuð ljós fyrir. Lögreglan er þó meðvituð um stöðuna sem hefur skapast og meðal annars mun sérsveit lögreglunna hafa haft gætur á þeim sem málinu tengjast. Ekki hefur þó þurft að kalla til aukinn mannskap til að sinna því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×