Innlent

Færri störf í boði í ár - fresturinn rennur út á morgun

Frestur til þess að sækja um sumarstarf hjá Reykjavíkurborg rennur út á morgun, þriðjudag. Heldur færri störf er í boði þetta árið en var í fyrra.

Opnað var fyrir umsóknir að sumarstörfum hjá Reykjavíkurborg þann 1. mars síðastliðinn og rennur frestur til að sækja um út á miðnætti á morgun.

Allir sem fæddir eru árið 1996 og fyrr geta sótt um og eru margvísleg störf í boði.

Bjarni Brynjólfsson upplýsingafulltrúi hjá Reykjavíkurborg segir að ekki hafi verið tekið saman hve margir hafi þegar sótt um, það sé ekki gert fyrr en fresturinn renni út.

Að hans sögn eru störfin sem í boði eru nokkuð færri þetta árið en var í fyrra. Hann segist ekki hafa nákvæmar tölur um það en í fyrra voru sumarstörfin um fimmtánhundruð en að í ár séu þau um tólfhundruð eða þar um bil.

Störfin í boði eru margvísleg eins og sjá má á heimasíðu Reykjavíkurborgar. Svo dæmi séu tekin er um störf við Vinnuskólann að ræða, leiðbeinendastörf hjá Hinu Húsinu, störf í Húsdýragarðinum og í sundlaugum borgarinnar, svo fátt eitt sé nefnt.

Nánari upplýsingar um störfin má nálgast hjá þjónustuveri Reykjavíkurborgar eða í Hinu Húsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×