Fótbolti

Gylfi sannfærður um að Tottenham komist áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Tottenham mætir í kvöld Lyon í síðari viðureign liðanna í 32-liða úrslitum Evrópudeildar UEFA. Tottenham vann fyrri leikinn, 2-1, með tveimur glæsimörkum frá Gareth Bale.

Gylfi Þór Sigurðsson er í viðtali á heimasíðu Tottenham og hann segist þess fullviss um að Tottenham nái að fylgja sigrinum eftir og tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum keppninnar.

Liðin mætast í Frakklandi klukkan 18.00 í kvöld og er leikurinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

„Við virðumst alltaf líklegir til að skora, sérstaklega á útivelli," sagði Gylfi. „Við höfum náð að skora í næstum öllum útileikjum okkar."

„Við erum sannfærðir um að við getum skorað eitt eða tvö mörk í kvöld en það væri afar jákvætt fyrir okkur - sérstaklega ef við náum að skora snemma."

„En Lyon sýndi okkur í fyrri leiknum að þetta er gott lið með marga hæfileikaríka leikmenn sem geta skapað usla. Þeir byrjuðu rólega í leiknum en skoruðu svo frábært mark. Við verðum að vera tilbúnir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×