Fótbolti

Arnór: Vil fara til Hollands aftur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnór í leik með íslenska landsliðinu.
Arnór í leik með íslenska landsliðinu. Nordic Photos / Getty Images
Arnór Smárason segist gjarnan vilja komast aftur í hollenska boltann eftir að samningur hans við Esbjerg í Danmörku rennur út.

Arnór hefur verið hjá Esbjerg í tvö og hálft ár en þangað kom hann frá Heerenveen í Hollandi. Arnór, sem er Skagamaður, fór ungur til Hollands á sínum tíma.

„Þegar ég skrifaði undir þriggja ára samning við Esbjerg var stefnan á að vera ekki lengur hjá Esbjerg en út samningstímann," sagði Arnór í Boltanum í X-inu í morgun.

„En svo var þjálfari liðsins að taka við danska U-21 liðinu í dag og því mun hann hætta í sumar. Það er aldrei að vita hvað nýr þjálfari vill gera þegar hann tekur við liðinu," sagði Arnór. „En planið hjá mér er að fara í sumar."

„Stefnan er að komast aftur til Hollands, í stærri deild og í betra lið. Mér líkar vel við hollenska boltann og ég hef metnað til að spila aftur þar."

Arnór segist ekki sjá eftir því að hafa gengið til liðs við Esbjerg á sínum tíma. „Ég hef þó verið nokkuð óheppinn með meiðsli en í þau skipti sem ég hef verið heill og fengið að spila hefur mér gengið vel."

„En ég vona að ég eigi enn nóg eftir og að ég sé rétt að byrju. Ég hef lært mikið af mínum árum í atvinnumennskunni, ekki síst af öllum meiðslunum, og er sáttur í dag."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×