Fótbolti

Maradona og Messi saman í liði?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Maradona og Lionel Messi.
Diego Maradona og Lionel Messi. Mynd/Nordic Photos/Getty
Diego Maradona er farinn að tala um möguleikann á því að nýfæddur sonur hans, Diego Fernando, spili í framtíðinni við hlið sona þeirra Lionel Messi og Sergio Aguero.

Victoria Ojeda, fyrrum kærasta Maradona fæddi Diego Fernando í Buenos Aires í síðustu viku. Hann er þremur og hálfum mánuði yngri en Thiago sonur Lionel Messi.

Maradona talaði líka um möguleikann á því að sonur hans og afasonurinn Benjamín (sonur dóttur hans Gianninu og Sergio Aguero) spili saman með Thiago Messi.

„Einn af þeim verður helst að verða miðjumaður. Ég held að Thiago (Messi) ráði mestu, Benjamin (Aguero) verður fremstur og Thiago spilar við hlið Dieguito Fernando," sagði Diego Maradona í útvarpsviðtali í Dúbæ.

Hinn 52 ára gamli Maradona er samningsbundinn í Dúbæ fram í júní og fer ekki til Argentínu til að sjá soninn sinn fyrr en þá. „Ég mun vera eins mikið með Diego Fernando og mögulegt er. Hann mun skorta ekkert," sagði Maradona.

Lionel Messi er besti knattspyrnumaður heims í dag og Diego Maradona þykir vera einn sá allra besti í sögunni. Það væru því margir til í að sjá Messi og Maradona spila hlið við hlið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×