Íslenski boltinn

Guðjón hafði samband við okkur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Þórðarson.
Guðjón Þórðarson. Mynd/Valli
Jónas Þórhallsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, segir að það hafi verið Guðjón Þórðarson sem átti frumkvæði að því að koma til starfa hjá félaginu.

Þetta er á skjön við það sem Guðjón sagði í viðtölum í vikunni. Mál hans hafa verið í brennidepli í vikunni eftir að stjórn knattspyrnudeildar Grindavíkur birti ársskýrslu sína á heimasíðu félagsins.

Þar segir að það hafi verið rétt afstaða hjá Þorsteini Gunnarssyni, þáverandi formanni knattspyrnudeildar, að vilja ekki ráða Guðjón. Honum hafi ekki fylgt sama ástríða og vonast hefði verið til, segir í skýrslunni.

Guðjón vísaði þessu á bug í viðtali í bæði sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 og Rúv í vikunni. „Ég á til dæmis pósta fra á Þorsteini þar sem hann býður mér starfið, þar sem ég á þeim tímapunkti afþakkaði starfið. Hann sendir mér annan póst þar sem hann ítrekar að hann óski eftir að fá mig til starfa og talar um hvað þurfi til að fá mig til að koma til Grindavíkur," sagði Guðjón.

„Ég hafði samband við hann árið 1999 og 2005 og vildi fá hann til starfa þá," sagði Jónas í Boltanum á X-inu í morgun. „En árið 2011 hringdi hann í mig og sóttist eftir þessu starfi."

Guðjón sagði einnig að honum hafi ekki verið gert fyllilega grein fyrir slæmri fjárhagsstöðu félagsins þegar hann kom til starfa. „Honum var fulljóst þegar hann kom að við vorum að takast á við stórt gat í okkar fjárhagi."

Guðjóni var sagt upp störfum hjá Grindavík eftir að liðið féll úr Pepsi-deild karla. Guðjón heldur því fram að uppsögnin hafi verið ólögmæt og því er málið hjá lögfræðingum nú.

„Ég vil að öðru leyti ekki ræða þessi mál opinberlega. En ef hann vill fara alla leið í réttarsalnum erum við ekki feimnir við að ljúka þessu. Það er allt á hreinu á okkar borði."

„Við erum að horfa fram á veginn. Þetta er hugsjónarstarf og Guðjóni Þórðarsyni er það ljóst eins og öllum öðrum. Þeir eiga að þakka fyrir að hafa fengið að vera á þessu sviði og með hugsjónarfólk í kringum sig," sagði Jónas.

Upptaka með viðtalinu við Jónas kemur inn á Vísi síðar í dag.


Tengdar fréttir

20 milljóna króna ölmusuferð

"Við fórum í björgunarleiðangur – svokallaða ölmusuferð til Reykjavíkur,“ segir Jónas Þórhallsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur. Taka þurfti til í fjárhagsmálum deildarinnar og stendur sú vinna yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×