Íslenski boltinn

20 milljóna króna ölmusuferð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stefna Grindavíkur er að hlúa vel að yngri flokkum félagsins og byggja þannig upp til framtíðar.fréttablaðið/daníel
Stefna Grindavíkur er að hlúa vel að yngri flokkum félagsins og byggja þannig upp til framtíðar.fréttablaðið/daníel
"Við fórum í björgunarleiðangur – svokallaða ölmusuferð til Reykjavíkur,“ segir Jónas Þórhallsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur. Taka þurfti til í fjárhagsmálum deildarinnar og stendur sú vinna yfir.

„Það er ekkert að fela hjá okkur. Við erum lögaðilar í félagsstarfi og það er allt uppi á borði hjá okkur," segir Jónas Þórhallsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur. Félagið birti á heimasíðu sinni ársskýrslu stjórnarinnar þar sem farið var yfir starfsárið á hreinskilnislegan máta.

Til að mynda var viðurkennt að mistök hefðu verið gerð með því að ráða bæði Guðjón Þórðarson sem þjálfara liðsins í fyrra sem og Sigurð Jónsson árið 2006. Bæði þessi ár féll liðið úr efstu deild.

Þá var sagt frá skuldastöðu félagsins og ótrúlegri ferð til Reykjavíkur sem skilaði 20 milljónum í kassann eftir „nokkurra mínútna fundi" eins og það var orðað í skýrslunni. Þetta var gert í nóvember árið 2011.

Vildu gjalda til baka

„Við fórum í björgunarleiðangur – svokallaða ölmusuferð til Reykjavíkur. Það var komið gat í okkar áætlanir sem við þurftum að bregðast við og var þetta uppskeran," sagði Jónas en viðkomandi fyrirtæki sem leitað var til starfa í Reykjavík og eru þjónustuaðilar í sjávarútveginum.

„Þetta eru fyrirtæki sem hafa átt langt og farsælt samstarf við Grindvíkinga og vildu gjalda það til baka. Það voru margir sem komu að þessu og þetta var niðurstaðan," segir Jónas og bætir við að um auglýsingasamninga hafi verið að ræða.

Jónas segir að áfram sé stefnt að því að grynnka á skuldum deildarinnar. Hún var rekin með tæplega fjögurra milljóna króna tapi á síðasta ári og er með fimmtán milljón króna yfirdráttarlán í banka.

Verkefnið er þó erfitt því félagið verði af miklum tekjum með því að missa sæti sitt í efstu deild karla, auk þess sem mun meiri ferðakostnaður fylgi því að spila í 1. deildinni.

„Ég er þó alls ekki að kvarta undan því enda þurfa lið utan af landi að koma oft suður yfir tímabilið. Við kvörtum ekki yfir því að fara til þeirra," sagði Jónas en deildin hefur meðal annars gripið til óhefðbundinna aðgerða til að lækka launakostnað, eins og Fréttablaðið hefur áður fjallað um.

Ætlum að ráðast á yfirdráttinn

„Launakostnaður knattspyrnufélaga er víða 80-90 prósent af heildarkostnaði og er það allt of mikið. Við höfum náð því niður og er ætlunin að ráðast á þennan yfirdrátt. En það er eina skuldin okkar – við erum ekki með nein langtímalán eða neitt slíkt," ítrekar Jónas.

Hann segir að markmið félagsins sé ávallt að ná árangri en hann gerir raunhæfar væntingar til liðsins nú í sumar. „Við erum með marga unga og efnilega stráka og ætlum ekki að setja of mikla byrði á þeirra herðar með því að segjast ætla að fara strax upp um deild. En ef okkur lánast að fá sterka leikmenn til félagsins fyrir sumarið þá er allt hægt," segir Jónas en félagið skoðar nú að fá til sín erlenda leikmenn.

En helsta markmiðið með starfi deildarinnar snýr fyrst og fremst að uppbyggingu knattspyrnunnar innan frá, að sögn Jónasar.

„Við ætlum ekki að koma fram með yfirlýsingar um að verða Íslandsmeistari. Okkar mottó í dag er að efla okkar yngri flokka. Við erum stoltir af okkar starfi – við lentum í ólgusjó en erum að vinna okkur upp úr honum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×