Fótbolti

Djöfullinn Barton og engillinn Beckham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Forsíða France Football
David Beckham mun spila sinn fyrsta leik með franska liðinu Paris St-Germain á sunnudaginn og mótherjinn eru Joe Barton og félagar í Marseille.

Hið virta fótboltatímarit France Football notaði tækifærið og eyddi forsíðu sinni í einvígi ensku miðjumannanna. Þeir félagar fá þó ekki alveg samskonar meðferð á forsíðunni.

Á meðan að David Beckham er með geislabaug og englavængi á forsíðumyndinni er Joe Barton settur í líki djöfulsins, rauður á hörund og með tvö horn. Það er hægt að sjá forsíðuna hér fyrir ofan.

Joey Barton hefur verið óhræddur að tjá sig um komandi leik á twitter-síðu sinni og telur að það skipti Marseille litlu máli þótt að Beckham verði með liðinu.

David Beckham mun spila "frítt" með Paris St-Germain þar sem laun hans fara til góðgerðamála í París. Það er því ekki út í hött að France Football skelli honum í englahlutverkið. Barton er aftur á móti duglegur að koma sér í ýmisskonar vandræði með hegðun sinni innan sem utan vallar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×