Fótbolti

Alfreð tryggði Heerenveen sigur | Tileinkaði Steinari markið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Finnbogason er hér lengst til vinstri.
Alfreð Finnbogason er hér lengst til vinstri. Nordic Photos / Getty Images
Alfreð Finnbogason skoraði sitt sautjánda mark í hollensku úrvalsdeildinni þetta tímabilið þegar hann tryggði sínum mönnum í Heerenveen 2-1 sigur á Twente.

Alfreð er í hópi markahæstu leikmanna deildarinnar en Graziano Pellé hjá Feyenoord hefur einnig skorað sautján mörk. Markahæstur er þó Wilfried Bony hjá Vitesse með 22 mörk.

Heerenveen komst yfir með marki Rajiv Van La Parra á fimmtándu mínútu en Twente jafnaði snemma í síðari hálfleik. Alfreð skoraði sigurmarkið með skalla á 79. mínútu eftir fyrirgjöf Van La Parra.

Hann tileinkaði Steinari Erni Ingimundarsyni markið en hann lést langt fyrir aldur fram í vikunni. Alfreð er góður vinur sonar hans, Þórs Steinarssonar, eins og fram kom á Fótbolti.net í kvöld.

Þetta var kærkominn sigur hjá Heerenveen sem er í ellefta sæti deildarinnar með 26 stig. Liðið hafði unnið aðeins einn af síðustu fimm deildarleikjum fyrir leikinn í kvöld.

Zwolle tapaði fyrir Groningen, 1-0, en Rúnar Már Sigurjónsson var ekki í leikmannahópi Zwolle í kvöld. Liðið er í þrettánda sæti deildarinnar með 24 stig.

Í Belgíu vann Leuven 2-1 útisigur á Mechelen. Stefán Gíslason var í byrjunarliði Leuven sem er í tíunda sæti belgísku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×