Fótbolti

PSG tapaði óvænt á móti Sochaux

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Sochaux, liðið í 17. sæti frönsku deildarinnar, vann óvæntan 3-2 sigur á stórstjörnuliði Paris St-Germain í frönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Cédric Bakambu, 21. árs framherji Sochaux, skoraði sigurmarkið sex mínútum fyrir leikslok.

Paris St-Germain var fyrir leikinn búið að vinna fjóra deildarleiki í röð og alls sjö leiki í röð í öllum keppnum þar á meðal 2-1 sigur á Valencia í 16. liða úrslitum Meistaradeildarinnar í síðustu viku.

Zlatan Ibrahimovic lék allan leikinn fyrir PSG í kvöld en tókst ekki að skora. Alex kom Parísar-liðinu í 1-0 á 29. mínútu eftir sendingu Javier Pastore.

Sébastian Roudet jafnaði metin fyrir Sochaux á 36. mínútu og lagði síðan upp mark fyrir Giovanni-Guy Yann Sio á 54. mínútu. PSG jafnaði metin með sjálfsmarki á 76. mínútu en sigurmarkið kom síðan átta mínútum síðar.

Paris St-Germain er áfram á toppi frönsku deildarinnar en liðið er með þriggja stiga forskot á Lyon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×