Fótbolti

Stórstjörnur út í kuldanum hjá Hollandi og Spáni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fernando Torres er búinn að missa sæti sitt í landsliðinu.
Fernando Torres er búinn að missa sæti sitt í landsliðinu. Mynd/Nordic Photos/Getty
Vicente del Bosque, þjálfari spænska landsliðsins í fótbolta og Louis van Gaal, þjálfari hollenska landsliðsins, ákváðu báðir að skilja stórstjörnur út í kuldanum þegar þeir völdu landsliðshópa sína fyrir vináttulandsleiki í næstu viku.

Vicente del Bosque er hvorki með Fernando Torres, framherja Chelsea, né Michu, spútnikstjörnu ensku úrvalsdeildarinnar, í hóp sínum fyrir æfingaleik á móti Úrúgvæ 6. febrúar næstkomandi. Cesar Azpilicueta, bakvörður Chelsea og Isco hjá Malaga eru í hópnum og gætu leikið sinn fyrsta landsleik.

Louis van Gaal valdi ekki Wesley Sneijder, Rafael van der Vaart og Arjen Robben í hópinn sinn fyrir vináttulandsleik á móti Ítalíu. Hann gaf þá skýringu að þeir væru ekki að spila reglulega með félögum sínum. Varnarmennirnir John Heitinga og Gregory van der Wiel sem og markvörðurinn Maarten Stekelenburg eru líka ekki með að sömu ástæðu.

Daley Blind, sonur aðstoðarmanns Van Gaal, Danny Blind, og Jonathan de Guzman, leikmaður Swansea voru hinsvegar báðir valdir í hollenska landsliðið í fyrsta sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×