Innlent

Ólafur Ragnar lét Gordon Brown heyra það

Boði Logason skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, lét Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, heyra það á ráðstefnu um efnahagsmál sem stendur nú yfir í Davos í Sviss.

Í viðtali við bresku fréttastofuna Sky News sagði forsetinn að Íslendingar myndu aldrei gleyma meðferðinni sem þeir fengu hjá breska forsætisráðherranum fyrrverandi eftir efnahagshrunið haustið 2008. Þá beittu Bretar hryðjuverkalögum á Íslendinga vegna Icesave-reikningana frægu.

Ólafur Ragnar sagði að Gordon Brown hefði orðið sér til skammar þegar hann ákvað að setja Íslendinga á lista með al Qaeda og Talíbönum. „Við Íslendingar erum ekki búnir að gleyma því," sagði Ólafur við Sky. Gordons Brown yrði minnst fyrir þetta á Íslandi næstu aldirnar, þótt að Bretar væru löngu búnir að gleyma honum.

Gordon Brown er einnig staddur á ráðstefnunni og tekur þar þátt í pallborðsumræðum.

Þá var íslenski forsetinn einnig spurður út í aðild Íslands að Evrópusambandinu og sagðist hann ekki gera ráð fyrir því að Ísland gengi í sambandið á meðan hann væri forseti. „Ef þú vilt að ég veðji, þá myndi ég tvímælalaust segja nei," sagði Ólafur Ragnar kokhraustur að vanda.

Umfjöllun Sky News má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×