Innlent

Frekari breytingar stjórnarskrárfrumvarpinu nauðsynlegar

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Frekari breytingar á stjórnarskrárfrumvarpinu eru nauðsynlegar áður en hægt er að samþykkja frumvarpið sem stjórnskipunarlög. Þetta er mat laganefndar Lögmannafélags Íslands. Nefndin gerir margar athugasemdir við efni frumvarpsins.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, kom fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis vegna stjórnarskrárfrumvarpsins í gær og gerði hann ýmsar athugasemdir við efni frumvarpsins. Tryggvi telur að mannréttindakaflinn geti valdið réttaróvissu og gerði hann athugasemdir við orðalag í frumvarpinu sem hann telur fela í sér nýbreytni í íslenskri lögfræði.

Í dag kom svo umsögn frá laganefnd Lögmannafélags Íslands. Þar kveður við svipaðan tón og hjá Tryggva.

Í umsögn um mannréttindakaflann segir lögmannafélagið að tilgangur 7. gr. frumvarpsins sé óljós, en þar er talað um „réttinn til lífs." Þá segir jafnframt í umsögninni að ákvæði í frumvarpinu um „mannlega reisn" sé óljóst.

Laganefndin telur að ákvæði frumvarpsins um tjáningarfrelsi sé þannig að skilyrði fyrir lögum sem hefti tjáningarfrelsi séu mun afmarkaðri og betur lýst í gildandi stjórnarskrá, en samkvæmt frumvarpinu.

Þá telur laganefndin að ákvæði sem heimili skerðingu mannréttinda í frumvarpinu stangist á við þá aðferðafræði sem breytingar á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar árið 1995 byggðu á.

Þá telur laganefndin að nokkur ákvæði frumvarpsins leggi mjög óljósar skyldur á ríkið, sem sé óheppilegt. Lokaorð nefndarinnar eru býsna skýr en þar segir að „frumvarpið þarfnist þó nokkurrar endur­skoðunar. Laganefnd geti því ekki mælt með því að frumvarpið verði samþykkt í óbreyttri mynd."

Eins og við greindum frá í fréttum okkar í gær hafa umsagnir sem borist hafa stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ekki breytt þeirri afstöðu meirihluta nefndarinnar að afgreiða frumvarpið úr nefnd. Málið er hins vegar enn hjá nefndinni og óvíst hvenær önnur umræða um það hefst í þinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×