Fótbolti

EM 2020 fer fram í þrettán borgum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Spánverjar hafa unnið síðustu tvö Evrópumót sem fóru fram 2008 og 2012.
Spánverjar hafa unnið síðustu tvö Evrópumót sem fóru fram 2008 og 2012. Mynd/AFP
Evrópska knattspyrnusambandið gaf það út í dag að EM 2020 muni fara fram í þrettán borgum víðsvegar í Evrópu en ekki einu eða tveimur löndum eins og hingað til. Framkvæmdastjórn UEFA tók þessa ákvörðun á fundi sínum en Michael Platini, forseti UEFA, hafði áður rætt þessa hugmynd á opinberum vettvangi. Platini kallar þessa keppni "EURO for Europe" eða Evrópumót fyrir Evrópu.

UEFA mun velja þessar þrettán borgir í september 2014 en meðal skilyrða hjá hverri fyrir sig er að stuðningsmenn þeirra liða sem spila þurfi ekki að umgangast hverja aðra á viðkomandi flugvelli. Leikvellir fyrir undanúrslit og úrslitaleik þurfa að taka 70 þúsund áhorfendur, leikvellir í átta liða úrslitum þurfa að taka 60 þúsund áhorfendur en 50 þúsund manna vellir nægja fyrir leiki í sextán liða úrslitum og í riðlakeppni.

UEFA mun setja saman þrettán pakka fyrir viðkomandi borgir, tólf þeirra munu innihalda þrjá leiki í riðlakeppni og einn leik í 16 eða 8 liða úrslitum en sá síðasti mun innihalda undanúrslitaleiki og úrslitaleik sem fara fram á sama velli. Borgirnar þrettán verða að koma frá þrettán löndum.

Næsta Evrópumót fer fram í Frakklandi árið 2016 en það verður jafnframt fyrsta Evrópukeppnin með 24 þáttökuliðum því aðeins sextán þjóðir voru með á EM 2012 í Póllandi og Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×