Fótbolti

Aron kynntur sem leikmaður AZ á mánudaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Jóhannsson.
Aron Jóhannsson. Mynd/AGF
Hollenska blaðið Voetbal International skrifar um það á vefsíðu sinni í dag að íslenski framherjinn Aron Jóhannsson verði kynntur sem leikmaður AZ Alkmaar á mánudaginn. Hann verður þriðju kaup félagsins í janúarglugganum.

Fyrr í morgun hafði danska Ekstrablaðið skrifað um tilboð AZ í Aron en hann mun samkvæmt heimildum VI kosta hollenska félagi eina og hálfa milljón evra eða um 260 milljónir íslenskra króna.

Aron skoraði 14 mörk í 18 leikjum fyrir AGF í dönsku úrvalsdeildinni áður en hún fór í vetrarfrí. Hann varð meðal annars fljótastur til að skora þrennu í dönsku deildinni en það tók hann aðeins 3 mínútur og 50 sekúndur í leik á móti AC Horsens.

Auk Arons hefur AZ keypt miðjumanninn Willie Overtoom frá Heracles Almelo og belgíska unglingalandsliðsvarnarmanninn Jonas Heymans frá Lierse SK.

AZ Alkmaar er mikið Íslendingafélag en með liðinu í dag spilar landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson og þá hafa landsliðsmennirnir Kolbeinn Sigþórsson (2007-2011), Aron Einar Gunnarsson (2006-2008) og Grétar Rafn Steinsson (2005-2008) allir spilað með félaginu sem og Jóhannes Karl Guðjónsson í stuttan tíma árið 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×