Innlent

Ritstjóri kærður fyrir ærumeiðandi skrif

Fyrirsögnin „Sýknaður af níði passar börn" er sögð misvísandi og ærumeiðandi í kæru á hendur ritstjóra Akureyri Vikublaðs til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands.

Það er dagforeldri á Akureyri sem leggur fram kæruna á hendur Birni Þorlákssyni, ritstjóra Akureyri vikublaðs. Í kærunni segir að fyrirsögn fréttarinnar hafi valdið miklum sársauka og vanlíðan, ekki síst hjá börnum og aðstandendum viðkomandi dagsforeldris.

Í fréttinni sem skrifuð var fyrr í mánuðinum var fjallað um dagforeldri á Akureyri sem passi 4-6 börn þrátt fyrir að hafa farið fyrir dóm vegna gruns um kynferðisbrot gagnvart syni sínum. Dagforeldrið, sem er karlmaður, var sýknaður af ákæru í Héraðsdómi Norðurlands eystra og Hæstarétti árið 2011.

Í kærunni er einnig tekið fram að fréttin hafi valdið viðkomandi dagforeldri umtalsverðum fjárhagsskaða, ærumissi og atvinnumissi. Ritstjórinn hafi ekki reynt að hafa samband við dagforeldrið við vinnslu fréttarinnar. Auk þess hafi dagforeldrið gætt þriggja barna en þar af séu tvö börn dagforeldrisins.

Kæran byggir á 3. og 5. grein siðareglna BÍ. Þar segir að blaðamaður skuli forðast allt sem valdið geti saklausu fólki óþarfa sársauka eða vanvirðu og að í frásögnum af dóms og refsimálum skuli blaðamenn virða þá meginreglu laga að hver maður sé talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.

Nánar er fjallað um málið á vef Akureyri vikublaðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×