Sport

Murray hungraður í meiri árangur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Andy Murray varð í fyrra fyrsti Bretinn til að vinna stórmót í tennis í 76 ár. Hann er hungraður í enn meiri árangur þetta árið.

Þetta segir Murray í viðtali við enska fjömliðla í dag en í næstu viku hefst Opna ástralska meistaramótið í tennis.

Murray vann reyndar einnig gull á Ólympíuleikunum áður en hann fagnaði sigri á Opna bandaríska mótinu í september. Hann hafði komist í úrslit á Wimbledon-mótiniu í júlí en tapaði þá fyrir Roger Federer.

„Sigrarnir tveir hvetja mig áfram til að ná enn lengra. Það tók langan tíma að ná þessum árangri og ég er ekki búinn enn," sagði Murray.

„Nú veit ég hvernig tilfinning það er að vinna þessi mót og ég geri mér grein fyrir því að öll vinnan hefur borgað sig."

Murray hafði unnið 22 mót á ATP-mótaröðinni áður en fyrsti stórmótssigurinn skilaði sér loksins. „Fram að því heyrði ég alls kyns vangaveltur um mig og mína persónu. En í dag skiptir það engu máli og það eina sem ég vil gera er að halda áfram að bæta mig."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×