Innlent

Lottó vinningshafi ætlar að bjarga heimili foreldra sinna

Samúel Karl Ólason skrifar
Það var pollrólegur fjölskyldumaður á fertugsaldri sem mætti til Íslenskrar getspár í morgun en hann er annar hinna heppnu vinningshafa sem vann tæpar 70 milljónir í Lottóinu á laugardaginn.

„Hann spilar oft með í Lottó og Lengjunni og verslar miðana sína á lotto.is . Á föstudaginn fór hann inn á lotto.is líkt og oft áður og átti rúmlega 500 krónur inná spilareikningnum sínum. Hann valdi þrjár raðir í Lottó og veitti því athygli að hann hefði efni á að kaupa eina röð í viðbót sem hann gerði. Á þessum tímapunkti velti hann því fyrir sér að hætta við kaupin og bæta við upphæð inná reikninginn til að geta keypt 10 raða seðil í þessum risapotti,“ segir í tilkynningu frá Íslenskri getspá.

Þá mundi maðurinn eftir því að hann hafi einu sinni látið ógilda Lengjumiða og breytt einum leik. „Ef hann hefði ekki breytt þeim leik á Lengjumiðanum hefði hann unnið á miðann, því ákvað hann að kaupa þessar 4 raðir og það var nóg því það var einmitt fjórða röðin sem var með allar 5 tölurnar réttar.“

Vinningsmiðinn kostaði því einungis 520 krónur. „þessi staðreynd minnir okkur enn og aftur á að það þarf ekki að spila fyrir háar fjárhæðir til að vinna stórt.“

„Vinningshafinn var ekki í neinum vafa um hvað hann ætlaði að gera við vinninginn, foreldrar hans eru við það að missa heimili sitt og hans fyrsta verk er að bjarga þeim. Við óskum vinningshafanum og fjölskyldu hans innilega til hamingju með þennan glæsilega vinning.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×