Fótbolti

Óttast að Wilshere verði lengi frá

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Enski vefmiðilinn Goal.com fullyrðir í dag að forráðamenn Arsenal óttist að Jack Wilshere verði frá í langan tíma eftir að ökklameiðsli tóku sig upp.

Þessi sömu meiðsli urðu til þess að hann var frá í alls sextán mánuði en nú þegar er ljóst að Wilshere verður ekki með Arsenal gegn Bayern München í síðari viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í vikunni.

Arsenal hefur gefið það út að Wilshere verði frá næstu 2-3 vikurnar og því ljóst að hann mun missa af landsleikjum Englands gegn San Marínó og Svartfjallalandi síðar í mánuðinum. Hvort Wilshere verði lengur frá á eftir að koma í ljós.

Wilshere meiddist í leik Arsenal og Tottenham fyrr í mánuðinum og en hann hélt í frí til Dúbæ í síðustu viku. Ástand hans verður metið þegar hann snýr til baka.

Wilshere fór í aðgerð vegna ökklameiðsla í september árið 2011 eftir að hafa meiðst á undirbúningstímabilinu. Hann sneri til baka þann 27. október síðastliðinn.

Fyrri viðureign Arsenal og Bayern lauk með 3-1 sigri Þjóðverjanna í London.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×